Skyldur leigutaka:

1) Leigutaki samþykkir ákvæði leigusamnings þessa og hefur fengið afrit af honum.

2) Ökumaður skal vera orðinn að minnsta kosti 20 ára og skal hafa haft ökuréttindi í að minnsta kosti eitt ár áður en til leigu kemur. Leigutaki skal við akstur ökutækis fara að íslenskum lögum og reglum. Ökutæki telst vera á ábyrgð leigutaka frá móttöku þess og þar til því hefur verið skilað og leigusali hefur skráð það og móttekið í tölvukerfi sitt. Skil ökutækis getur einungis átt sér stað á opnunartíma leigusala.

3) Leigutaki skal skila ökutækinu: a. Ásamt öllum fylgihlutum, svo sem hjólbörðum, verkfærum, skjölum, möppum og öðrum búnaði sem var í eða á bílnum við útleigu, í sama ásigkomulagi og það var við móttöku, að undanskildu eðlilegu sliti vegna notkunar. Ef eitthvað vantar samþykkir leigutaki að kostnaðarverð einstakra hluta sem ekki fylgja við skil, sé gjaldfært á greiðslukortið sem leigutaki framvísaði við upphaf leigu. Sama á við um aukahluti sem teknir eru með bifreiðinni ef eitthvað vantar af þeim eða þeim skilað í ófullkomnu ástandi verður andvirði þeirra gjaldfært á greiðslukortiði sem leigutaki framvísaði við upphaf leigu sem greiðslumáta. b. Á tilskildum tíma, sem tilgreindur er á framhlið leigusamnings þessa, eða fyrr, ef leigusali krefst þess t.d. vegna brots á leigusamningi. c. Til aðseturs leigusala, þar sem ökutækið var tekið á leigu, nema um annað hafi verið samið. Ef leigutaki skilar ökutækinu ekki á þeim stað sem leigusamningurinn kveður á um, er leigusala heimilt að gjaldfæra á greiðslukort leigutaka, samkvæmt verðskrá hverju sinni, fyrir þeim kostnaði sem hlýst að því að sækja ökutækið. d. Með fullum eldsneytisgeymi af eldsneyti. Ef ökutæki er ekki skilað með fullum eldsneytisgeymi af eldsneyti er leigusala heimilt að gjaldfæra á greiðslukort leigutaka kostnað fyrir það eldsneyti sem á vantar til að geymir sé fullur og þá samkvæmt verðskrá leigusala hverju sinni.

4) Leigutaki skal greiða fyrir eldsneyti og annað sem þarf til aksturs ökutækisins á meðan ökutækið er á hans ábyrgð, sem samkvæmt leigusamningi þessum, er aldrei skemmri tími en þar til leigusali hefur skráð ökutækið móttekið í tölvukerfi sínu, en slíkt getur einungis átt sér stað á opnunartíma leigusala.

5) Skili leigutaki ekki ökutækinu á réttum tíma samkvæmt leigusamningi þessum, eða semji við leigusala um áframhaldandi leigu, er leigusala eða lögreglu heimilt að taka ökutækið í sína vörslu, án frekari fyrirvara, á kostnað leigutaka. Áframhaldandi leiga er háð samþykki leigusala. Skili leigutaki ökutækinu 1 klst. eða síðar eftir að leigutími rennur út er leigusala heimilt að innheimta allt að sólarhringsgjaldi samkvæmt leigusamningi þessum. Fyrir hvern dag sem hefst eftir það er leigusala heimilt að innheimta öll gjöld samkvæmt verðskrá leigusala hverju sinni.

6) Einungis þeir sem skráðir eru ökumenn samkvæmt leigusamningi, og uppfylla lið 2 hér að ofan, hafa leyfi til að aka ökutækinu. Sé ökumaður ekki skráður á leigusamning þennan falla allar tryggingar og sjálfsábyrgðargjöld niður og er leigutaki þá ábyrgur að fullu fyrir bifreiðinni, því tjóni sem kann að verða á henni, öðrum aðilum, hlutum eða bifreiðum og skuldbindur sig til að greiða slík tjón að fullu.

7) Leigutaki ber hlutlæga bótaábyrgð á ökutækinu gagnvart leigusala, svo sem vegna tjóna eða þjófnaðar á ökutækinu.

8) Leigutaki ber hlutlæga bótaábyrgð gagnvart leigusala á tjóni sem leiðir af notkun ökutækisins þ.m.t. tjóni á farþegum og öðru fólki.

9) Leigutaki ber ábyrgð á tjóni sem leiðir af notkun ökutækisins, þ.m.t. tjóni á ökutækinu og/eða farþegum sem rekja má til eftirtalinna þátta: a. Aksturs utan vega. b. Aksturs í ám eða hvers konar vatnsföllum. c. Ásetningsverka eða stórkostlegs gáleysis. d. Notkunar ökumanns á vímugjöfum. e. Notkunar ökutækisins er brýtur í bága við landslög og/eða ákvæði leigusamnings þessa. f. aksturs í sand- eða öskufoki.

10) Leigutaka er óheimill: a. Akstur á lokuðum vegum, akstur utan vega, svo sem á vegatroðningum og götuslóðum, um fjörur, forvaða eða aðra vegleysu. b. Akstur á vegum sem eru F-merktir á opinberum kortum ásamt veginum að Landmannalaugum (nr. 208), Kjalvegi (nr. 35) og um Kaldadal (nr. 550), nema á bifreiðum í flokkum 4WD (fjórhjóladrif) sem leigusali samþykkir að séu hæfir á slíkum vegum. Brot gegn grein þessari heimilar leigusala að beita leigutaka févíti ,skv. verðskrá leigusala hverju sinni óháð tryggingum leigutaka. Framangreint ákvæði um févíti hefur ekki áhrif á skyldu leigutaka til greiðslu skaðabóta vegna tjóns. c. Akstur undir áhrifum hvers konar vímugjafa. d. Akstur í ám eða yfir ár eða hverskonar vatnsföll en slíkur akstur er alfarið á ábyrgð leikutaka, sbr. einnig i-liður 30. gr. e. Akstur í snjósköflum og á ís. f. aksturs í sand- eða öskufoki.

11) Sé um árekstur eða annað óhapp að ræða, skal leigutaki tafarlaust tilkynna um atburðinn til viðkomandi lögregluyfirvalda svo og til leigusala, og má hann eigi yfirgefa stað þann þar sem árekstur eða annað óhapp varð, fyrr en svo hefur verið gert, og lögregla er mætt á staðinn eða að tjónaskýrsla hafi verið gerð. Leigutaki skal fylla tafarlaust út tjónaskýrslur ef um tjón er að ræða. Tilkynni leigutaki ekki um tjón innan 12 klukkustunda frá því að tjónið átti sé stað ber hann fulla ábyrgð á tjóninu, nema sýnt sé fram á með óyggjandi hætti að það hafi ekki verið mögulegt, og skal leigutaki þá greiða fyrir það að fullu óháð þeim sjálfsábyrgðargjöldum sem leigutaki tók við upphaf leigu. Þegar um tjón á hinu leigða ökutæki er að ræða er það einhliða ákvörðun leigusala hvort leigutaki fær annað ökutæki í staðinn.

12) Leigutaki samþykkir að greiða leigusala samkvæmt kröfu geymslufé er nemi áætluðum leigukostnaði og/eða öðrum gjöldum sem fyrirsjáanlega geta fallið á leigutaka vegna leigunnar.

13) Leigutaka er óheimilt að láta fara fram viðgerðir eða breytingar á ökutækinu og fylgihlutum þess eða afhenda það sem tryggingu, án áður fengins skriflegs samþykkis leigusala.

14) Leigutaki er ábyrgur fyrir öllum stöðubrotasektum, sektum fyrir umferðarlagabrot og öðrum sektum sem kunna að berast leigusala vegna leigusamnings þessa. Leigusali áskilur sér rétt til að innheimta þjónustugjald hjá leigutaka, samkvæmt verðskrá leigusala hverju sinni, komi til þess að leigusali verði að greiða sektir fyrir leigutaka og/eða upplýsa yfirvöld um leigutaka vegna umferðalagabrota. Þjónustugjöld og sektir verða gjaldfærðar á greiðslukort leigutaka.

15) Leigutaka er óheimilt að nota ökutækið til flutninga á farþegum gegn greiðslu, lána það eða framleigja.

16) Leigutaki skal greiða allan innheimtukostnað sem fellur á leigusala þurfi leigusali að grípa til innheimtuaðgerða vegna leigusamnings þessa.

17) Leigutaki er ábyrgur fyrir öllum kostnaði við flutning ökutækis til þess aðseturs leigusala sem leigusali ákveður, ef um er að ræða flutning vegna tjóns eða skemmda á ökutækinu, eða af öðrum ástæðum, og hefur greiðsla sjálfsábyrgðargjalds trygginga engin áhrif þar á.

Skyldur leigusala:

18) Leigusali ábyrgist að ökutækið fullnægi lagalegum kröfum sem gerðar eru um það.

19) Ökutækið skal afhent leigutaka með fullan eldsneytisgeymi af eldsneyti.

20) Leigusali ábyrgist að reyna sitt besta til að afhenda ökutækið á umsömdum tíma. Verði ökutækið afhent meira en 8 klukkustundum eftir áætlaðan afhendingatíma til leigutaka skal leigugjald fyrir þann dag falla niður.

21) Bili ökutækið vegna eðlilegs slits eða af öðrum ástæðum sem ekki eru leigutaka um að kenna, skal leigusali afhenda leigutaka annað ökutæki svo fljótt sem auðið er, eða sjá til þess að viðgerð fari fram svo fljótt sem auðið er, á þeim stað sem leigusali ákveður. Framangreint hefur ekki áhrif á greiðslu leigugjalds eða annars sem leigutaka ber að greiða samkvæmt leigusamningi þessum. Leigusali greiðir engar bætur í þeim tilvikum sem að framan greinir, hvorki vegna gistingar, né annars.

22) Leigusali skal kynna leigutaka efni leigusamnings þessa og sérstaklega þær skyldur sem hann tekur á sig með undirritun hans.

23) Leigusali skal, eftir fremsta megni, upplýsa erlendan leigutaka um íslenskar umferðarreglur, umferðamerki og reglur um bann við akstri utan vega, sem og áhættu sem stafar af dýrum á vegum.

24) Vilji leigusali takmarka notkun ökutækis með hliðsjón af útbúnaði þess og/eða ástandi vega, að öðru leyti en gert er í leigusamningi þessum, skal það gert skriflega við undirritun leigusamnings þessa.

25) Leigusali ábyrgist að vera ávallt með gilda starfsábyrgðartryggingu. 26) Leigusali er ekki ábyrgur fyrir hvarfi muna eða skaða á þeim, sem leigutaki, eða annar aðili, geymdi eða flutti í eða á ökutækinu.

Tryggingar og sjálfsábyrgðargjöld (CDW og SCDW):

27) Innifalið í leigugjaldi eru lögboðnar ökutækjatryggingar, þ.e. ábyrgðartrygging og slysatrygging ökumanns og eiganda.

28) Ábyrgðartrygging gagnvart þriðja aðila og slysatrygging ökumanns og eiganda nemur þeirri upphæð sem íslensk lög kveða á um hverju sinni.

29) Sjálfsábyrgð leigutaka vegna tjóns á ökutæki er allt að fullu verðgildi ökutækis, sbr. nánari tilgreining sjálfsábyrgðar á framhlið samnings þessa. Leigutaki getur greitt sjálfsábyrgðargjöld CDW og SCDW, og lækkað með því fjárhagslega ábyrgð sína vegna tjóns á ökutæki. Upphæð sjálfsábyrgðargjalds er samkvæmt verðskrá leigusala hverju sinni. Þó sjálfsábyrgðargjald sé greitt ber leigutaka þó ætíð að greiða lágmarksupphæð ef um tjón er að ræða á hinu leigða ökutæki, á meðan ökutækið er á ábyrgð leigutaka. Sú upphæð er ákveðin í verðskrá leigusala hverju sinni. Hver sjálfsábyrgð nær aðeins til eins óhapps. Sé um að ræða fleiri tjón sem augljóslega hafa ekki átt sér stað í einu og sama óhappinu gildir hver og ein sjálfsábyrgð aðeins um eitt óhapp.

30) Fjárhæðir sjálfsábyrgðargjalda (CDW og SCDW) eru mismunandi eftir því til hversu hárrar tjónsfjárhæðar þau ná. Um fjárhæðir sjálfsábyrgðargjalda (CDW og SCDW) og til hvaða tjónsfjárhæða greiðsla slíkra gjalda nær er vísað til verðskrár leigusala, sem telst hluti af leigusamningi þessum, ef sjálfsábyrgðargjöld (CDW og SCDW) eru greidd. Greiðsla sjálfsábyrgðargjalda (CDW og SCDW) lækkar ekki sjálfsábyrgð leigutaka vegna tjóns á ökutæki þegar um eftirfarandi er að ræða:
a. Skemmdir af ásettu ráði eða sakir stórkostlegrar óvarkárni ökumanns. b. Skemmdir sem verða þegar ökumaðurinn er undir áhrifum áfengis, örvunar- eða deyfilyfja, eða að öðru leyti ófær um að stjórna ökutækinu á tryggilegan hátt. c. Skemmdir vegna kappaksturs eða reynsluaksturs. d. Skemmdir vegna hernaðar, uppreisna, óeirða og/eða óspekta. e. Skemmdir af völdum dýra. f. Brunagöt á sætum, teppum eða mottum. g. Skemmdir er varða hjól, hjólbarða, felgur, fjaðrir, rafgeymi, gler, viðtæki, svo og tjón vegna þjófnaðar einstakra hluta ökutækis og skemmda sem af því stafa. h. Skemmdir af akstri á ósléttri akbraut, svo sem á gírkassa, drifi, olíupönnu, vél eða öðrum hlutum í eða á undirvagni ökutækisins, skemmdir á undirvagni er hljótast af því að ökutækið tekur niðri á ójöfnum akbrautum, svo sem hryggjum eftir veghefla, jarðföstu grjóti á akbraut eða við akbrautarbrúnir. Sama gildir um skemmdir er verða þegar laust grjót hrekkur í eða undir ökutækið eða í vatnskassa í akstri. i. Skemmdir vegna aksturs þar sem bannað er að aka ökutækinu, svo og við akstur á vegatroðningum, götuslóðum, snjósköflum, ís, yfir eða í óbrúuðum ám, lækjum eða öðrum vatnsföllum, um fjörur, forvaða eða aðra vegleysu. j. Skemmda á fólksbílum sem verða við akstur á vegum sem eru F-merktir á opinberum kortum og á vegunum um Kjöl (nr. 35), Kaldadal (nr. 550) og veginum að Landmannalaugum (nr. 208). k. Tjón af völdum þess að sandur, möl, aska, vikur eða önnur jarðefni fjúka á ökutækið eða ökutækinu er ekið í sand- eða öskufoki. l. Ef ökutækið er flutt sjóleiðina nær greiðsla sjálfsábyrgðargjalds ekki til tjóns af völdum sjóbleytu. m. Tjón leigusala vegna þjófnaðar á ökutækinu. n. Vatnsskaða á ökutæki.

31) Með greiðslu sérstakra gjalda, TP (Þjófnaðargjald), SAAP (Sand og öskugjald), WP (Framrúðu- og framljósagjald) getur leigutaki lækkað sjálfsábyrgð sína á tjóni á bifreiðum vegna þjófnaðar, ösku og sandfoks og skemmdum á framrúðu og framljósum. Þó ofansögð gjöld séu greidd ber leigutaka þó ætíð að greiða lágmarksupphæð ef ökutækið verður fyrir tjóni á leigutímanum meðan það er á ábyrgð leigutaka. Sú upphæð er ákveðin í verðskrá leigusala hverju sinni.

Almenn ákvæði:

32) Leigusala er heimilt að taka ökutækið í sína vörslu hvenær sem er, án fyrirvara, ef því hefur verið lagt ólöglega, eða ef það hefur verið notað á einhvern annan hátt sem er ekki samkvæmt leigusamningi þessum eða lögum og reglugerðum, eða ef ökutæki virðist yfirgefið, eða leigutaki hefur ekki staðið í skilum með leigugjöld til leigusala.

33) Nú beitir leigusali rétti sínum samkvæmt framangreindu og hefur slíkt þá engin áhrif á greiðslu leigugjalds, eða annars sem leigutaka ber að greiða samkvæmt leigusamningi þessum.
Þó skal endurleiga ökutækis til þriðja aðila innan umsamins leigutíma koma til frádráttar fjárhæð leigugjalds, að því marki sem leigutími leigutaka og þriðja aðila fellur saman. Leigusali ákveður einhliða hverju sinni hvort leigutaki fær annað ökutæki í stað þess leigða, sé leigusamningur þessi brotinn á einhvern hátt eða vegna slysa eða tjóna. Fái leigutaki annað ökutæki til umráða af annarri og ódýrari gerð er ekki um neina endurgreiðslu að ræða til leigataka fyrir mismuninum. Sé hins vegar einungis til dýrara ökutæki áskilur leigusali sér rétt til að innheimta mismun á hinu leigða ökutæki og því sem leigusali afhendir leigutaka í staðinn, á greiðslukortið sem leigutaki framvísaði við upphaf leigu eða síðar sem greiðslumáta.

34) Sé ökutækið illa um gengið, notað til flutninga á gæludýrum eða að reykt hafi verið í ökutækinu ber leigutaka að greiða fyrir þrif á bílnum samkvæmt verðskrá leigusala hverju sinni.

35) Leigusala er heimilt að gjaldfæra á greiðslukort leigutaka leigugjald og annað sem leigutaka ber að greiða samkvæmt leigusamningi þessum, svo sem greiðslur vegna tjóna sem verða á ökutæki á meðan það er í vörslu leigutaka og ennfremur vegna tapaðra útleigudaga leigusala vegna tjóna, að teknu tilliti til nýtingarhlutfalls flota leigusala á hverjum tíma. Leigusali skal hafa ákvörðunarvald um hvenær það skuli gert og hvort það sé gert í einu lagi eða ekki. Réttur þessi stendur óhaggaður í 6 mánuði eftir að ökutæki hefur verið skilað til leigusala.
Undirritun leigutaka á leigusamning þennan er jafngild undirritun leigutaka á greiðslukortafærslur vegna greiðslna þeirra er leigusali gjaldfærir á greiðslukort leigutaka og leigusala bar réttilega að fá vegna ákvæða leigusamnings þessa.

36) Leigutaki staðfestir með undirritun sinni á leigusamning þennan og ástandsblað bifreiðarinnar (RVCR), að hafa tekið við ökutækinu og fylgihlutum í góðu ásigkomulagi.

37) Leigusamningur þessi skal ávallt vera í ökutækinu á meðan það er á ábyrgð leigutaka.

38) Hvers konar breytingar eða viðaukar við leigusamning þennan eru háðar því að þær séu gerðar skriflega og séu staðfestar með undirritun beggja samningsaðila.

39) Um leigusamning þennan og samninga þá sem gerðir eru á grundvelli ofangreindra skilmála, sem og bótakröfur sem eftir atvikum kunna að vera gerðar, skal farið að íslenskum lögum. Gildir það bæði um grundvöll og útreikning bóta. Sama gildir um bótakröfur á grundvelli bótaábyrgðar utan samninga. Rísi mál út af samningi þessum skal málið eingöngu rekið fyrir heimilisvarnarþingi leigusala.

40) Leigutaki staðfestir með undirritun sinni á samning þennan að verði ökutækið fyrir tjóni eða skemmdum sem leigutaki ber ábyrgð á séu eftirfarandi gögn fullnægjandi sönnun fyrir kostnaði og umfangi slíks tjóns eða skemmda, hvort sem rekið verður einkamál um slíka kröfu eða ekki:
1) Undirritaður leigusamningur
2) Undirritað ástandsblað bifreiðarinnar við upphaf leigu
3) Útfyllt ástandsblað við lok leigu
4) Áætlaður tjónakostnaður útgefið af Hertz
5) Ljósmynd af tjóni á bifreið.

41) Skjóta má ágreiningsmálum samningsaðila leigusamnings þessa til starfandi úrskurðarnefndar Neytendasamtakana og Samtaka ferðaþjónustunnar.